Útkall – Sonur þinn er á lífi

1.990 kr.

0 atkvæði
Hljóðbókin er um 6 klukkustundir og 20 mínútur í hlustun.

 

,,Hjálp, hjálp,“ hrópar  19 ára piltur hásri röddu, kaldur og slasaður – innilokaður í þröngri þró, sér ekki handa sinna skil. Enginn leitarmanna hefur nokkra möguleika á að heyra í piltinum. Hann er líklega búinn að vera meðvitundarlaus í 2 klukkustundir. Martröðin er rétt að byrja. Við erum á vettvangi tveggja stórra snjóflóða sem féllu í Neskaupstað fyrir jólin 1974. Annar maður berst með öðru flóðinu 30 metra út á sjó og á 10 metra dýpi. Þar fær hann hjartaáfall. Við illan leik kemst hann upp á yfirborðið í krapablönduðum sjónum. Þar flýtur brak úr Mánahúsi en þar voru þrjár konur og þrjú börn þegar flóðið splundraði húsinu.

Í Kaupfélaginu og úti um allan bæ leita aðstandendur að ástvinum. Í Frystihúsinu moka menn í örvæntingu í stækum ammoníaksdaun og reyna að finna vinnufélaga sem urðu undir flóðinu sem fór gegnum bygginguna. Við Síldarbræðsluna, sem nánast þurrkaðist út, leita menn að vinnufélögum. Neskaupstaður er í sárum. Þjóðin stendur á öndinni.

Næsti sólarhringur er afdrifaríkur. Hverjir finnast? Hverjir eru á lífi? Söguhetjurnar segja nú, margar í fyrsta skipti, frá því sem raunverulega gerðist. Þetta er einn sögulegasti atburður síðustu aldar. Þá var engin áfallahjálp og fólk vissi ekki hvernig það átti að bregðast við sorginni: ,,Enn í dag hef ég ekki talað við besta vin minn um móðurmissi hans,“ segir ein söguhetjan. Við fylgjumst með hvernig Norðfirðingar öðluðust vonina á ný.

Útkallsbækur Óttars Sveinssonar eru eitt vinsælasta lesefni Íslendinga. ,,Maður kemst í samband við hversdagsmenn sem sýna af sér umhyggju, ást og virðingu,“ segir Páll Baldvin Baldvinsson. Einn af hápunktum Bókasýningarinnar í Frankfurt á síðasta ári var þegar Óttar leiddi saman skipverja af Goðafossi  og loftskeytamann kafbátsins sem skaut skipið niður.

 

Höfundur: Óttar Sveinsson.

 

Höfundur les.