Fátækt fólk

2.490 kr.

0 atkvæði
Hljóðbókin er um 11 klukkustundir í hlustun.

Fátækt fólk, fyrsta bindi æviminninga Tryggva Emilssonar verkamanns, vakti mikla athygli og umtal þegar bókin kom út árið 1976 – fyrir fádæma orðsnilld, persónusköpun og stíl en þó fyrst og fremst fyrir þá sögu sem þar var sögð.  Söguna af fátæku fólki á Íslandi fyrir tíma almannatrygginga; þegar hægt var að taka björgina frá barnmörgu heimili vegna þess að kaupmaðurinn þurfti að fá sitt; þegar litlum börnum var þrælað út í vist hjá vandalausum; þegar sjálfsagt þótti að senda hungrað barn gangandi tvær dagleiðir í vondu veðri til að reyna að fá úttekt í versluninni.

Frásögn Tryggva af uppvexti sínum, móðurmissi og vondum vistum snemma á síðustu öld hefur engu glatað af styrk sínum og töfrum og á ef til vill ennþá brýnna erindi við okkur nú en þegar hún kom fyrst út.

Bókin var flutt í lestri Þórarins Friðjónssonar í Ríkisútvarpinu sem framhaldssaga árin 1990 og 2006. Hún birtist hér með samþykki rétthafa.

 „… þetta er stórmerkileg bók.“
Egill Helgason / Kiljan

„… bók skrifuð af miklu listfengi, hann hefur mikið vald á íslenskri tungu … það er mikill mannskilningur í þessari bók … það er mjög erfitt að tala um þessa bók án þess að verða tilfinningasamur.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / Kiljan

 „Ég varð djúpt snortinn af þessari bók; í henni er ekki vottur af tilgerð heldur er hún hrikalega einlæg og falleg … þetta er persónuleg nærmynd af Íslandi sem var.“
Ingi F. Vilhjálmsson / DV

„Sannleikurinn er einfaldlega sá að þessi bók er alveg sérstök … hún er ein merkasta og áhrifamesta ævisaga sem skrifuð var hér á landi á 20. öld. …Frásagnargáfa höfundar er slík að lesandinn gengur inn í verkið og fylgir hinum unga, hungraða dreng sem þarf alltof oft að takast á við ömurlegt umhverfi og óvinveitt fólk. Og einhvern veginn virðist þessum gáfaða dreng hafa tekist að varðveita svo fjarska vel mennskuna í sjálfum sér, þrátt fyrir að hafa verið í eymdinni miðri. …   Þetta er tímalaus bók og gæði hennar eru slík að hún mun standast alla tískustrauma. Hún er eilífur minnisvarði um lífsbaráttu fátæks fólks.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / Morgunblaðið

 

Þórarinn Friðjónsson les.